*

mánudagur, 22. júlí 2019
Innlent 29. október 2017 13:28

Sigmundur sagði Loga sýna meinfýsni

Forystumenn flokkanna þrættu um menningu stjórnmálanna og áhrif hennar á að fá fleiri konur í stjórnmál.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins og Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar tókust harkalega á í Silfrinu á RÚV í morgun, þegar talið barst að jafnréttismálum.

Í umræðum forystumanna flokkanna átta sem komust á þing í kosningunum í gær kom upp umræða um stöðu kvenna á Alþingi, og var þar til að mynda orðunum beint til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í Miðflokknum og bent á að af 7 þingmönnum flokksins væri einungis ein kona.

Sigmundur sagði þá það vera að stórum hluta tilviljun að kenna hvernig atkvæði röðuðust eftir kjördæmum, og nefndi tvær konur sem voru ekki langt frá því að komast inn fyrir flokkinn.

Áferð stjórnmálanna ekki góð

Sigmundur sagði að spá þyrfti sérstaklega í áferð stjórnmálanna í samhengi við stöðu kvenna í stjórnmálum.

,,Maður hefur tekið eftir því að fólk almennt, en sérstaklega konur, hlutfallslega meira, eru bara ekkert hrifnar af því hvernig stjórnmálin líta út, og þar af leiðandi er þetta ekki freistandi stjórnmálavettvangur, svona eðlilega eins og þetta hefur verið að þróast," sagði Sigmundur.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir talsmaður Pírata sagði þá:  ,,Ég held að þetta sé orðið mjög þreytt samt, þessi rök, ég held að það sé ekki trúverðug lengur að segja þetta."

Sigmundur sagði þá: ,,Þetta er bara staðreynd"

,,Þær eru alla vega ekki að sópast að mér," skaut þá Inga Sæland formaður Flokks fólksins inn í.

Sigmundur sagði þá: ,,Staðreyndin er sú að yfirbragð stjórnmálanna er ekki gott, og það er orðið sífellt erfiðara að fá fólk, bæði konur og karla, til þátttöku í stjórnmálum, og hlutfallslega er það enn þá erfiðara varðandi konur"

Þorgerður Katrín og Katrín sögðu þátttökuna velta á uppstillingu lista

Þessu mótmæltu bæði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar sem sagði mikið af ungum konum hafa tekið þátt í baráttunni með flokknum og Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna sagði að þetta snerist um uppsetningu listanna.

Sagði Þorgerður rök Sigmundar ekki lengur halda, og að flokkur sinn, þar sem jafnrétti væri lykillinn að nálgun í öllum málefnum, að þegar kæmi að stjórnarmyndunarviðræðum efaðist hún um að það væri fýsilegt að fara í samstarf með flokkum sem væru með fornaldarnálgun í jafnréttismálum. Beindi hún síðan orðum sínum til Ingu Sæland og sagði jafnréttismálin í klessu hjá Flokki fólksins.

Logi blandar aflandskrónueignum og gjalmiðlamálum inn í umræðuna

Þá kom Logi Einarsso formaður Samfylkingarinnar inn í umræðuna og skaut föstum skotum að Sigmundi í og með því að taka undir með að breyta þyrfti menningunni í stjórnmálunum.

,,Fyrirgefðu aðeins Sigmundur, sko kúltúr sem byggist á því að menn telji þjóðinni sinni trú um það að henni sé best borgið með einhverri ákveðinni mynt og einhverju ákveðnu umhverfi, en fara svo sjálfir með peningana sína til útlanda," sagði Logi sem beindi sérstaklega síðustu orðunum að Sigmundi.

,,Kúltúr sem byggir á því að flokkurinn taki [sjálfan sig] fram yfir þjóðina þegar kemur að því að gefa upplýsingar, það er akkúrat það umhverfi sem konur væntanlega vilja ekki stíga inn í, hvað gerum við þá, þá breytum við þeim kúltúr." 

Þá svaraði Sigmundur: ,,Ég held að það sé miklu frekar meinfýsni eins og þú ert að sýna núna..."

Logi grípur inn í: ,,Bara alls ekki"

Sigmundur: ,,Og framkoma þín í þættinum í gærkvöldi eða fyrrakvöld, ég held það sé miklu frekar þessi ásýnd stjórnmálamannanna..."

Logi greip þá aftur inn í: Heldurðu það?

,,Já sem þú ert að sýna akkúrat núna," sagði þá Sigmundur sem kom seinna í þættinum aftur að þessu máli og sagði það vera alvarlegt vandamál hve óaðlaðandi stjórmálin væru.

,,Og það breytist ekki meðann stjórnmálin halda áfram að þróast meira og meira út í eitthvað svona persónulegt níð," sagði þá Sigmudur og benti í átt til Loga.