Samningar ríkisins við lækna geta ekki gefið fordæmi fyirr þá kjarasamninga sem eftir eru á hinum almenna vinnumarkaði. Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra í erindi sínu á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs sem stendur nú yfir á Nordica.

Þá sagði hann að almenni markaðurinn hafi haft sinn þátt í aukinni kröfu um launahækkanir, m.a. með kjarasamningum við flugmenn. Stór þáttur í kaupmáttaraukningu launa upp á síðkastið vera vegna stöðugleikasamninga sem aðilar vinnumarkaðarins undirrituðu á síðasta ári. Hann sagðist gera sér grein fyrir því að krónutöluhækkun launa gæti leitt til aukinnar verðbólgu en að það væri engu að síður ekki lögmál. Síðustu árin hafi þær leitt til hærri launa fyrir þá lægst launuðu og að mikilvægt sé að draga úr jaðaráhrifum sem búa til fátæktargildrur.

Sigmundur kallaði eftir virku samtali aðila vinnumarkaðarins við ríkisstjórnina. Atvinnulífið verði að styðja við almenning og almenningur verði að styðja við atvinnulífið að hans sögn.

Evran skapar fleiri vandamál en hún leysir

Í ræðu sinni kom Sigmundur að utanríkisviðskiptum og ítrekaði andstöðu sína við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þá sagði hann að upptaka evru myndi skapa ný vandamál fremur en að leysa þau sem fyrir eru því að sveiflur á vinnumarkaði tækju við af gengissveiflum.

Hann bætti því við að ríkisstjórnin væri tilbúin að lækka tolla en það er aldrei gert einhliða heldur verði slík lækkun að vera í samningum við önnur ríki. Þá sagði hann að fráleitt væri að tala um að Ísland væri einangrað land í þessu samhengi og nefndi sem dæmi að Evrópusambandið leggur tvöfalt fleiri innflutningstolla en Ísland.

Að lokum kallaði Sigmundur eftir breiðari samstöðu meðal allrar þjóðarinnar og sagði í því ljósi að mikilvægasta hagsmunamál þjóðarinnar væri afnám hafta.