Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir það virðast vera orðinn vinsælan samkvæmisleik í ákveðnum kreðsum að finna tilefni til að halda því fram að hann sé ósammála Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra - og öfugt.

Sigmundur segir á Facebook síðu sinni að ef einhver þeirra stjórnmálaspekúlanta sem hafa boðað þessa kenningu myndu spyrja sig og fjármálaráðherra samtímis að því hvað klukkan er og annar segði að hún væri tuttugu mínútur yfir tólf en hinn að hún væri tuttugu mínútur gengin í eitt myndu spekúlantarnir eflaust halda því fram, sigri hrósandi, að ráðherrarnir væru ekki einu sinni sammála um hvað klukkan er.

Nýjasta dæmið segir Sigmundur vera umræðuna um losun hafta þar sem hann og Bjarni hafi sagt nákvæmlega sömu hlutina. Samt reyni menn að túlka orð þeirra í sitt hvora áttina.

Báðir meta stöðuna eins

Sigmundur skrifar:

„Frá því að ný ríkisstjórn tók við hef ég sagt að afnám hafta gæti tekið skamman tíma (jafnvel væri hægt að leysa málið á hálfu ári) ef réttar aðstæður skapast en það gæti líka tekið langan tíma ef ekki sköpuðust réttar aðstæður. Þetta sagði ég í viðtali við Reuters síðast liðið sumar og endurtók sömu rulluna í viðtali í fyrradag. Í fyrra skiptið var skrifuð frétt um að losun hafta gæti tekið skamman tíma og í seinna skiptið frétt um að losun hafta gæti tekið langan tíma. Hvort tveggja er rétt og í samræmi við það sem ég sagði í bæði skiptin. Fjármálaráðherra sagði nýverið í viðtali við Bloomberg að losun hafta gæti gengið hratt fyrir sig ef réttar aðstæður sköðuðust. Nánar til tekið: „Ef hægt er að samrýma væntingar allra hlutaðeigandi aðila, þá ætti að vera hægt að leysa þetta innan árs, jafnvel innan sex til níu mánaða.“ Með öðrum orðum: Báðir mátu stöðuna nákvæmlega eins. Þessu var hins vegar stillt upp sem andstæðum. Þ.e. forsætisráðherra teldi að losun hafta gæti gerst hægt eða hratt en fjármálaráðherra væri hins vegar á því að losun hafta gæti gerst hratt eða hægt.“