Forsætisráðuneytið hefur skilað Mercedes Benz E250 CDI sem Jóhanna Sigurðardóttir lét panta stuttu áður en hún yfirgaf forsætisráðuneytið.

Bíllinn, sem átti að taka við af BMW ráðuneytisins, var pantaður til reynslu og gat ráðuneytið því skilað honum án kostnaðar. Listaverð bílsins er í kringum 11 milljónir króna.

Þetta var fyrsti Benzinn sem hefur verið ráðherrabíll forsætisráðuneytisins frá því Geir Hallgrímsson lét af embætti árið 1978.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ekur því á BMW 730 Li bifreið sem Jóhanna notaði áður. Bíllinn er 15 cm lengri en venjuleg útgáfa og var keyptur nýr árið 2004 í forsætisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar.

Ítarlega er fjallað um ráðherrabíla forsætisráðherra frá árinu 1979 í Bílum, sérblaði Viðskiptablaðsins sem kemur út í fyrramálið. Einnig er fjallað í blaðinu um umtalaða ráðherrabíla á síðustu áratugum.