Niðurfelling skulda heimilanna verður ekki afgreidd á sumarþingi sem hefst í næstu viku og óvíst er hvort stjórnarskrármálið verður á dagskrá, segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Kom þetta fram í kvöldfréttum RÚV .

Sigmundur Davíð segir að ríkisstjórnin fari nú yfir þau mál sem verða á dagskrá sumarþing sem verður sett fimmtudaginn 6. júní, á fimmtudag í næstu viku.

Forsætisráðherra gerir ráð fyrir að línur verði lagðar á sumarþinginu varðandi skuldamál heimilanna. „En stóru málin hvað varðar skuldamál heimilanna, skuldaleiðréttingin til dæmis, tengist auðvitað öðrum stórum málum sem að eru í vinnslu og þar af leiðandi klárast það mál ekki á sumarþinginu. En menn munu að minnsta kosti vilja gefa til kynna hvert sé stefnt og jafnframt leggja mál sem tengjast hagsmunum heimilanna beint, til dæmis í skattamálum.“

Eitt af þeim málum sem til stóð að ræða á sumarþingi er stjórnarskrármálið, sem tók ærinn tíma og stóð í síðasta þingi. „Það liggur ekki ljóst fyrir hvort að stjórnarandstöðuþingmenn sem að lögðu það fram á sínum tíma muni leggja það fram aftur, en það verður tekin afstaða til þess í framhaldinu.“