„Pólitísk stefna sjóðsins er ekkert sérstaklega heppleg fyrir almenna borgara í þeim löndum sem þiggja aðstoð hans,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um gagnrýni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á tillögur ríkisstjórnarinnar um niðurfellingu á hluta verðtryggðra íbúðalána sem Sigmundur og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynntu fyrir hálfum mánuði. Sigmundur rifjaði upp í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag AGS hafa löngum verið andsnúinn almennum aðgerðum sem lúti að því að lækka skuldir landsmanna. Þvert á móti hafi aðkoma AGS reynst fjármálafyrirtækjum vel þar sem hann hafi komið að málum.

„Ég hef verið ósammála þeirri pólitík sem AGS rekur,“ sagði Sigmundur.

Óttast að verðbólga fari á skrið

Það var Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, sem spurði Sigmund út í gagnrýni innlendra og erlendra aðila á skuldatillögur ríkisstjórnarinnar. Bæði AGS, Már Guðmundsson seðlabankastjóri og greiningardeildir banka hafa talið áhrifin af skuldaniðurfellingum geta komið fram í aukinni eftirspurn og meiri verðbólgu. Það muni svo aftur skila sér út í verðtryggð lán.

Sigmundur sagði afstöðu Seðlabankans reyndar í jákvæðari kantinum og viðbrögð hans með þeim betri.

Hann taldi hægt að vinna gegn verðbólguáhrifum, ekki síst seinni hluta aðgerðanna og muni skattaafslátturinn virka í hina áttina, þ.e. draga úr ókostunum.

„Það mikilvægasta sem ríkisstjórnin getur gert er að skila af sér hallalausum fjárlögum og að kjarasamningar verði hagstæðir. Ástæðan fyrir því að menn hafa lagt svo mikið á sig til að skila hallalausum fjárlögum er vegna þess að það er grundvallaratriði til að ná tökum á verðbólgunni,“ sagði Sigmundur.