Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tekur við störfum dómsmálaráðherra á meðan lekamálið er til meðferðar. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í fréttum Bylgjunnar að loknum ríkisstjórnarfundi nú í hádeginu að þetta sé heppilegasta niðurstaðan. Um sé að ræða skammtímaráðstöfun.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra óskaði eftir því um miðjan mánuðinn eftir að Gísli Freyr Valdórsson, aðstoðarmaður hennar, var ákærður í lekamálinu svokallaða, að segja sig frá málefnum sem hafa með ákæruvald og dómsmál að gera.

Þá sagði Bjarni ríkisstjórnina með þessari ákvörðun ekki síður vera að stíga í átt að því að endurreisa dómsmálaráðuneytið. Dómsmál fóru inn í innanríkisráðuneytið þegar það var sameinað samgönguráðuneyti í ársbyrjun 2011.