Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins segir ótækt að klára ekki verkefni seinni hluta fjögurra ára plansins sem felast í stjórnarsáttmála flokksins við Sjálfstæðisflokkinn. Segist hann áður hafa bent á mikilvægi þessa þegar viðraðar voru hugmyndir um að flýta kosningunum eins og hann kallar það.

Þetta kemur fram í grein sem hann ritar í Morgunblaðið í morgun, þar sem hann segir meðal annars að fyrri hluti hafi snúist um að takast á við vandamál, eins og til dæmis fjárlagahallann, skuldaleiðréttinguna og aðgerðir gegn kröfuhöfum bankanna.

Seinni hlutinn hafi átt að snúast um að nýta tækifærin sem þessar aðgerðir hafi skapað, fjögurra ára planið hafi gengið upp síðustu þrjú ár og nú sé bara viljinn allt sem til þurfi til að klára það.

Sem dæmi um þau verkefni sem hann telji nauðsynlegt að ríkisstjórnin fái tækifæri til að klára sé leiðrétting fyrir eldri borgara, búsetujafnrétti milli landsbyggðar og höfuðborgar, frekari uppbygging innviða og loks að laga fjármálakerfið og losa samfélagið úr viðjum verðtryggingar.