*

laugardagur, 23. janúar 2021
Erlent 12. janúar 2021 13:28

Signal hækkar og hækkar

Lítið líftæknifyrirtæki er margfalt verðmætara en það var fyrir tíst ríkasta manns heims um samnefnt samskiptaapp.

Ritstjórn
Elon Musk forstjóri Tesla og stofnandi SpaceX er nú ríkasti maður heims og vilja því ýmsir fylgja ráðleggingum hans um hvar eigi að fjárfesta, en í ákafanum getur ýmislegt misskilist.

Þrátt fyrir að komið hafi í ljós að tæknifyrirtækið Signal sé ekki það sem Elon Musk, nú ríkasti maður heims, hafi vísað til þegar hann mælti með samnefndu skilaboðaforriti hefur gengi bréfa félagsins haldið áfram að hækka.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrir helgi hækkaði verðmæti bréfa félagsins fyrst um 527% eftir að Musk hafði í stuttu tísti á samfélagsmiðlinum Twitter hvatt fólk til að nota Signal. Fyrir tístið stóðu bréfin í 0,6 dollurum á hlut en fóru á fimmtudaginn upp í 3,76 dollara á hlut. Undir lok viðskipta á föstudaginn voru bréfin komin upp í 7,49 dollara á hlut. Bréf tóku svo enn stærra stökk í gær og fóru upp í 38,70 dali, sem samsvarar 5.675% prósenta hækkun frá því Musk tísti um félagið.

Musk átt hins vegar við ótengdan en samnefndan samskiptamiðil sem keppir meðal annars við Whatsapp sem er í eigu Facebook. Samfélagsmiðlarisinn hefur legið undir gagnrýni fyrir að ætla að hætta að dulkóða skilaboðin í appinu og deila þeim með Facebook. Ekki er hægt að kaupa bréf í samefndu samskiptaforriti en það er ekki rekið í hagnaðarskyni.

Virðið úr 7 milljörðum í 460 milljarða

Signal Advance er lítið líftæknifyrirtæki í Texas sem hét Biodyne Development Company fyrir nafnabreytinguna árið 2007. Fyrir tíst Musk var félagið metið á um 55 milljónir dollara, sem samsvarar um 7 milljörðum króna en það er nú metið á 3,55 milljarða dollara, sem samsvarar um 460 miljörðum króna. Sé félagið sett í íslenskt smahengi fór virði félagsins úr því úr að vera lægra en öll félög í íslensku kauphöllinni í að vera verðmætar en öll nema eitt, Marel.

Heimasíða Signal Advance lá um tíma niðri vegna mikillar umferðar á síðuna, en Signal appið hefur tíst um að það sé skiljanlegt að fólk vilji fjárfesta í miklum vexti samskiptamiðilsins, og bent á að ekki sé um að ræða fjárfestingu í því þó nafnið sé það sama.

Léku þeir sér jafnan með nafnið og spurðu hvort þetta sé merkingin á því þegar greinendur segja að markaðurinn sé að gefa misvísandi merki. Janframt segja þeir einu fjárfestingu sína sé í friðhelgi einkalífs notenda.

Hvatning Musk gagnrýni á tæknirisa?

Skilaboð Musk komu í kjölfar þess að Facebook, Instagram og Twitter hafa öll lokað á aðgang Donald Trump Bandaríkjaforseta í kjölfar innrásar mótmælenda inn í bandaríska þinghúsið en gagnrýnendur vilja meina að hægt sé að túlka orð forsetans á miðlunum sem hvatning til ofbeldis.

Ýmsir hafa talið að með þessum lokunum séu stóru tæknifyrirtækin að seilast of langt í því að stýra umræðunni og hafa fjölmargir sem gjalda varhug við því fært sig yfir á aðrar síður, til að mynda Parler. Ekki hefur komið fram að Musk taki undir með þeirri gagnrýni.

Parler hefur til að mynda verið kallað hið nýja Twitter en stefna þess er að ritskoða ekkert efni heldur láta réttarkerfinu eftir að sækja þá til saka sem brjóta lög. Amazon lokaði í kjölfarið á að fyrirtækið gæti notað netþjóna sína.

Stikkorð: Facebook Amazon Instagram Elon Musk Twiter Signal Parler Signal Advance