Það eru margar leiðir til að sigrast á kreppunni en Jón Trausti Snorrason, framkvæmdastjóri vefsíðufyrirtækisins Allra átta, segist hafa fundið ágæta leið til þess. Í samtali við Viðskiptablaðið sagði hann að það hafi haft mikið að segja fyrir hann að taka upp aðferðafræði þá sem felast í Mastermind samskiptahópum. Að sögn Jóns Trausta er tilgangur Mastermind hópa að kraftmiklir einstaklingar hittist reglulega og deili sín á milli hugmyndun, markmiðum og aðferðum og styðji hvern annan og séu hver öðrum hvatning.

"Lykilatriði svona hópa er traust og þagnarskylda," segir Jón Trausti sem segist sannfærður um að með þessari aðferðafræði sé hægt að sigrast á kreppunni.

Nálgunin að þessari aðferð er ekki hefðbundin í þeim skilningi að einhver selji vöruna eða hugmyndafræðina heldur eru þáttakendur látnir sjá um að dreifa fagnaðarerindinu sjálfir. Að sögn Jóns Trausta er ekki vitað hvað eru margir Mastermind hópar á landinu í dag, en hann taldi að þeir skiptu líklegast tugum, jafnvel hundruðum. ,,Þetta er í raun ekki eitthvað sem er flókið eða þarf að læra, í raun er nóg að mæta á einn fund og þá átta sig líklegast flestir á hvernig Mastermind virkar og hvaða form er haft á fundunum og hver tilgangurinn er en það er einfaldlega að ná meiri árangri," sagði Jón Trausti sem sagðist vera svo sannfærður um ágæti þessa samskiptaforms að hann vildi deila reynslunni með fleirum. Hann hefur þannig haft frumkvæði að því að setja upp heimasíðu um framtakið, www.mastermind.is .

Allar samskiptaleiðir henta

Þegar kemur að fundarforminu henta allar samskiptaleiðir sagði Jón Trausti, ýmist að menn hittist á fundum, í gegnum síma eða tölvu. Að sögn Jóns Trausta er mikilvægt að menn séu tilbúnir að takast á við þá hluti í lífinu sem eru erfiðir en skila jafnframt mestum árangri (20/80% reglan), þ.e. 20% af því sem fólk gerir skapar 80% af árangrinum!  Heppilegast sé að fimm til átta manns séu í hverjum hópi.

Nafnið Mastermind kemur frá svo kölluðum Mastermind hópum, en slíkir hópar hafa verið við líði allt frá upphafi síðustu aldar. Einn af frægari Mastermind hópum kom frá Ameríku en í honum voru: Firestone feðgarnir (dekkjaframleiðiandi), Thomas Edison (heimsfrægur uppfinningamaður og frumkvöðull), Henry Ford (bílaframleiðandi), E.W. Grove (sjálfskapaður Milljónamæringur) og Fred Seeley (hótelgúrú og hægri hönd E.W.Grove).