*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 13. mars 2019 14:58

Sigríður Andersen stígur til hliðar

Sigríður Andersen hyggst stíga til hliðar. Forsætisráðherra segir ekki tímabært að segja til um hvort hún snýr aftur.

Ritstjórn
Sigríður Andersen hefur verið dómsmálaráðherra frá því í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sem mynduð var í ársbyrjun 2017.
Haraldur Guðjónsson

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hyggst stíga til hliðar sem dómsmálaráðherra í kjölfar dóms Mannréttindadómstóls Evrópu er varðar skipun dómara í Landsrétt. Þetta tilkynnti hún á fundi með blaðamönnum nú rétt í þessu.

Sigríður sagðist ætla að stíga til hliðar meðan Landsréttarmálið er útkljáð – og nefndi í því sambandi nokkrar vikur – þar sem hennar persóna kynni að trufla ferlið. Málið hefur hinsvegar ekkert verið rætt innan ríkisstjórnarinnar enn. 

Hún sagði dóm Mannréttindadómstóls Evrópu hafa komið sér verulega á óvart, og hún hefði heyrt frá séfræðingum að dómurinn komi öllu löglærðu fólki mjög á óvart.

Sigríður áréttaði á fundinum að enginn dómur hefði komist að þeirri niðurstöðu að dómararnir 15 sem skipun hlutu séu ekki hæfir, eða að þeir fjórir sem ekki voru skipaðir séu hæfari en þeir sem skipun hlutu.

Þá benti hún á að allar þrjár greinar ríkisvaldsins hafi komið að skipuninni umdeildu, og sagði hæstarétt hafa komist að þeirri niðurstöðu að ekkert tilefni hafi verið til að ætla að um stórvægilegt brot væri að ræða.

Sigríður sagði dóm Mannréttindadómstólsins ekki hafa tekið þá spurningu, sem fyrir hann var lögð, fyrir efnislega, og benti á sératkvæði tveggja dómara. „Dómarar eiga ekki að dæma eftir öldurótinu á hverjum tíma, heldur eftir lögunum,“ sagði hún ennfremur um dóminn.

Ekki tímabært að segja til um hvort Sigríður á afturkvæmt
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagðist styðja ákvörðun Sigríðar, en að ekkert lægi fyrir um hver tæki við ráðherraembættinu þar til málið yrði leitt til lykta eða hve langan tíma það tæki.

Þá sagði hún ekki tímabært að segja til um hvort Sigríður ætti afturkvæmt í ríkisstjórn.

Fréttin hefur verið uppfærð.