Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur ákveðið að skipa Sigríði Auði Arnardóttur í embætti ráðuneytisstjóra frá og með 1. mars næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Sigríður Auður er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur starfað í ráðuneytinu frá árinu 1998 og gegnt embætti skrifstofustjóra frá árinu 2003, á skrifstofu laga og upplýsingamála, skrifstofu laga og stjórnsýslu og á skrifstofu umhverfis og skipulags.

Sigríður Auður var staðgengill ráðuneytisstjóra frá 2007 til 1. mars 2014 þegar hún var settur ráðuneytisstjóri til eins árs. Stefán Thors, fráfarandi ráðuneytisstjóri, fer til starfa í forsætisráðuneytinu.

Með skipun Sigríðar Auðar gegna í fyrsta sinn fleiri konur en karlar embætti ráðuneytisstjóra í Stjórnarráði Íslands.

Sigríður Auður er gift Vilhjálmi Erni Sigurhjartarsyni viðskiptafræðingi og eiga þau dótturina Unni Svölu.