Sigríður Benediktsdóttir, sem var skipuð í rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið, hefur verið ráðin til Seðlabanka Íslands sem framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika. Við ákvörðun um ráðningu var litið til reynslu og þekkingar Sigríðar á sviði fjármála og hagfræði, bæði á fræðasviði og úr starfi, auk víðtækrar þekkingar sem hú hefur aflað sér með starfi í rannsóknarnefnd Alþingis, segir í tilkynningu á vef Seðlabankans.

Sigríður lauk BS-prófi í hagfræði í Háskóla Íslands 1995 og BS-prófi í tölvunarfræðum frá sama skóla 1998. Sigríður lauk doktorsprófi í hagfræði frá Yale-háskóla í maí 2005.

Frá 2007 hefur Sigríður starfað sem kennari og aðstoðarmaður deildarforseta við hagfræðideild Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Samhliða því hefur hún stundað rannsóknir á sviði fjármálahagfræði, með áherslur á fjármálamarkaði. Hún starfaði sem hagfræðingur hjá Seðlabanka Bandaríkjanna á árunum 2005-2007 og sem verkefnisstjóri og ráðgjafi hjá Hugviti hf. 1997-1998. Á árunum 1995-1997 var Sigríður hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og var sumarstarfsmaður hjá Seðlabanka Íslands 1992,1993 og 1995. Sigríður var skipuð í rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið árið 2008.

„Fjármálastöðugleiki er nýtt svið innan Seðlabanka Íslands en núverandi fjármálasviði hefur verið skipt upp í tvær einingar, fjármálstöðugleika og greiðslukerfi. Meginviðfangsefni sviðsins felast í greiningu á áhættu í fjármálakerfinu og þátttöku í mótun varúðarreglna fyrir fjármálakerfið. Sviðið tekur þátt í stefnumótun varðandi uppbyggingu fjármálakerfisins og varðandi markmið, tæki og skipulag fjármálastöðuleika á Íslandi. Svið á í miklum samskiptum við stofnanir sem starfa að fjármálastöðugleika á Íslandi, einkum Fjármálaeftirlitið, en er einnig þátttakandi í umtalsverðu alþjóðlegu samstarfi,“ segir í tilkynningunni.