*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 23. október 2017 12:12

Sigríður Dagný tekur við Birtíngi

Sigríður Dagný Sigurbjörnsdóttir tekur við sem framkvæmdastjóri Birtíngs útgáfufélags en Karl Steinar Óskarsson lætur af störfum.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Karl Steinar Óskarsson hefur óskað eftir því að láta af störfum sem framkvæmdastjóri útgáfufélagsins Birtíngs, sem gefur út tímaritin Vikuna, Gestgjafann, Hús og híbýli og mánaðarlega fríblaðið Mannlíf. Fjárhagslegri endurskipulagningu Birtíngs er nú lokið, en Karl Steinar hefur leitt þá vinnu og telur nú tímabært að breyta til segir í fréttatilkynningu.

„Nú þegar endurskipulagningu á rekstri Birtíngs er að mestu lokið þá fannst mér kominn tími til þess að hverfa á önnur mið. Ég hef verið í brúnni í ólgusjó í nokkurn tíma og hef öðlast mikla og dýrmæta reynslu í rekstri fyrirtækis í krefjandi umhverfi,” segir Karl Steinar.

“Birtíngur er kominn á lygnan sjó og tími til komin að aðrir taki við. Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að starfa með afburðafólki og kveð það með trega, en óska þeim alls hins besta í framtíðinni." Sigríður Dagný Sigurbjörnsdóttir, sölustjóri Birtíngs, hefur samþykkt að taka við framkvæmdastjórninni, og mun leiða sókn félagsins í kjölfar endurskipulagningarinnar. 

„Ég hlakka til að takast á við þau spennandi og krefjandi verkefni sem bíða mín hjá Birtíngi. Hjá Birtíngi starfar hópur fólks sem vinnur mjög öflugt starf í fjölmiðlun og það veitir mér jákvæða innsýn inní fyrirtækið sjálft og störf starfsmanna,“ segir Sigríður Dagný. „Með nýjum áherslum og eigendum Birtíngs opnast ýmis spennandi tækifæri sem verður gaman að takast á við.“

Gunnlaugur Árnason, stjórnarformaður Birtíngs: „ Stjórnin þakkar Karli Steinari vel unnin störf og býður Sigríði Dagný velkomna til starfa í nýju hlutverki“.