Þegar Áslaug Arnar Sigurbjörnsdóttir tók við embætti dómsmálaráðherra hafði niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu verið áfrýjað til yfirdeildar dómstólsins. Málflutningur fer fram í febrúar næstkomandi, en óvíst er hvenær endanleg niðurstaða mun liggja fyrir. „Við höfum tryggt starfsemi Landsréttar með settum dómurum þangað til lokaniðurstaða fæst í þessum málum.“

Hún segir ljóst að verklag og framkvæmd við skipun dómara þurfi að vera skýrari. „Lokaákvörðunin þarf að vera á sama stað og ábyrgðin, hjá ráðherra. Verklag hæfisnefnda þarf að sama skapi að vera skýrt. Ég er að skoða breytingar á því ferli og tel að til lengri tíma litið geti stjórnmálin komið sér saman um aðferðir sem þurfa ekki að fela í sér pólitísk átök.”

Áslaug telur Sigríði Andersen forvera sinn ekki hafa gert mistök í embætti með dómaraskipan sinni. „Ef ráðherra á að bera ábyrgð á skipun dómara þá þarf hann líka að hafa val. Ég held að við ættum að líta til annarra landa í þessum efnum,“ segir hún, og vísar þar til þess að sumar hæfnisnefndir erlendis skili þremur tillögum fyrir hverja stöðu. Það sé þó fullkomlega eðlileg krafa, hafi ráðherra bæði vald til og beri ábyrgð á skipun dómara, að ákvörðunin sé rökstudd á fullnægjandi hátt.

Fjöldi og umfang formsatriða kom á óvart
Þegar kemur að ríkisrekstrinum segir Áslaug ýmislegt mega bæta. Sem dæmi sé tímabært að endurskoða lög um opinbera starfsmenn. „Þetta er eitt af því sem þyrfti að breyta til hagsbóta fyrir allt kerfið. Staða opinberra starfsmanna er allt önnur í dag en hún var þegar lögin voru sett.“

Meðal annarra áherslumála hennar á þessu sviði er að einfalda regluverk, afnema úreltar reglugerðir og nútímavæða stjórnsýsluna og gera hana rafræna. „Við þurfum auðvitað alltaf að huga að því hvernig við getum straumlínulagað kerfið en samt sinnt öllum þeim fjölda mála sem heyra undir hvert ráðuneyti,“ segir hún.

Fjöldi og umfang formsatriða sem þarf að hafa í huga og alþjóðleg samvinna sem þarf að sinna hafi komið sér talsvert á óvart þegar hún kom inn í ráðuneytið. „Margt af því er til hagsbóta, og erfitt að draga úr ef við viljum vera þjóð á meðal þjóða og vera hér með sömu reglur og annars staðar t.d. fyrir atvinnulífið. Við viljum auðvitað gera þetta vel, en þetta tekur talsvert á kerfið okkar.“

Nánar er rætt við Áslaugu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .