Sigríður Björk Guðjónsdóttir verður fyrsta konan til að gegna embætti lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefur í kjölfar niðurstöðu sérstakrar valnefndar tilkynnt um skipan í embætti lögreglustjóra í sjö af níu umdæmum landsins. Samkvæmt nýjum lögum verður lögregluumdæmunum fækkað úr 15 í níu og mun breytingin taka gildi um næstu áramót, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá innanríkisráðuneytinu.

Sigríður Björk hefur verið lögreglustjóri á Suðurnesjum frá 2009 en flyst nú til höfuðborgarsvæðisins. Í hennar stað verður Ólafur Helgi Kjartansson, sem hefur gengt sýslumannsembætti á Selfossi, nýr lögreglustjóri á Suðurnesjum.

Skipan í embætti lögreglustjóra verður sem hér segir:

Lögreglustjóri á Suðurlandi: Kjartan Þorkelsson.
Lögreglustjóri á Austurlandi: Inger L. Jónsdóttir.
Lögreglustjóri á Norðurlandi eystra: Halla Bergþóra Björnsdóttir.
Lögreglustjóri á Norðurlandi vestra: Páll Björnsson.
Lögreglustjóri á Vesturlandi: Úlfar Lúðvíksson.
Lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu: Sigríður Björk Guðjónsdóttir.
Lögreglustjóri á Suðurnesjum: Ólafur Helgi Kjartansson

Þá verða embætti lögreglustjóra á Vestfjörðum og í Vestmannaeyjum auglýst á næstu dögum.