„Við erum alveg forviða á þessari niðurstöðu, vegna þess að hún er í raun einsdæmi í Evrópu og það er okkur algjörlega óskiljanlegt hvernig þeir komast að þessu,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já, um ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í máli gegn fyrirtækinu sem birt var í morgun. Í ákvörðuninni er fyrirtækinu gert að greiða sekt sem nemur 50 milljónum króna, og jafnframt að veita samkeppnisaðilum aðgang að gagnagrunni fyrirtækisins.

Niðurgreiði verð til keppinauta

„Þeir leggja þetta upp með þeim hætti að við hefðum átt að niðurgreiða verð til okkar keppinauta. Við höfum alltaf boðið þessi gögn til sölu á kostnaðarverði auk hæfilegrar álagningar. Verðskráin sem við vorum að vinna eftir er upphaflega frá 1998, og sú skrá var send Samkeppnisstofnun og ekki var gerð athugasemd við hana á þeim tíma, svo þeir eru að skipta um skoðun núna,“ segir Sigríður.

Sigríður segir jafnframt að fyrirtækið sé núna í þeirri stöðu að tvær eftirlitsstofnanir hafi komist að sitt hvorri niðurstöðunni í málinu.

„Annars vegar erum við með Samkeppniseftirlitið sem segir að okkur beri að veita aðgang og svo hins vegar úrskurðarnefnd fjarskipta og póstmála sem segir að það sé auðvitað fjarskiptafyrirtækjanna að veita þessar upplýsingar. Enda er staðan í dag auðvitað þannig, og við höfum sagt það, að allir geta samið við fjarskiptafyrirtækin eins og við, svo þetta er okkur í rauninni óskiljanlegt.“

Algjör misskilningur

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins segir að Já hf. sé fyrirtæki sem hafi frá stofnun þess árið 2005 rekið upplýsingaþjónustu um símanúmer. Meginstarfsemi félagsins byggi að öllu leyti á gagnagrunni félagsins þar sem haldið sé utan um upplýsingar sem tengist öllum símanúmerum sem úthlutað hefur verið af fjarskiptafyrirtækjum hér á landi. Þrátt fyrir að starfsemi Já sé ung að árum byggi hún á gömlum grunni forvera fyrirtækisins, Símans.

Sigríður segir að þetta sé algjör misskilningur. „Það fyrsta sem við gerðum þegar Já var stofnað var að ganga til allra fjarskiptafyrirtækjanna og semja við þau um að kaupa af þeim gögn. Vegna þess að áður en Já var stofnað þá innihélt sá grunnur sem við höfðum einungis upplýsingar um viðskiptavini Símans.“

Munu áfrýja niðurstöðunni

Já ætlar ekki að una niðurstöðunni og mun fara með málið alla leið gerist þess nauðsyn. „Niðurstöðunni verður áfrýjað. Fyrsta skrefið er auðvitað að leggja málið fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála en við förum alla leið ef þess þarf,“ segir Sigríður að lokum.