Í marsmánuði á þessu ári komst áfrýjunarnefnd samkeppnismála að þeirri niðurstöðu að Já væri ekki skylt að veita samkeppnisaðilum aðgang að gagnagrunni félagsins undir kostnaðarverði auk þess sem hún taldi ósannað að fyrirtækið hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína. Þetta hafði þá þýðingu að Já fékk endurgreidda 50 millj- ón króna sekt sem Samkeppniseftirlitið hafði skyldað það til að greiða.

„Við vorum algjörlega sannfærð um að þetta hefði verið röng ákvörðun hjá Samkeppniseftirlitinu og kærðum niðurstöðuna til úrskurðarnefndar samkeppnismála,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já, í viðtali við Viðskiptablaðið. „Ég verð að viðurkenna að ég er mjög hugsi yfir vinnubrögðum eftirlitsstofnana í tengslum við þetta mál,“ bætir hún við.

„Já er ekki stórfyrirtæki heldur keppir það við fjölmörg alþjóðleg risafyrirtæki. Það hefur farið mikill tími í þessi mál. Við erum vel rekið fyrirtæki að því leytinu til að það er ekki mikil yfirbygging hjá félaginu. Hér er ekki fjármálastjóri, starfsmannastjóri, lögfræðingur eða markaðsstjóri. Það hefur farið mikill tími og mikið fjármagn í þessar eftirlitsstofnanir. Fyrirtæki eins og Já, sem keppir á alþjóðlegum grundvelli, verður að treysta á að samkeppnisskilyrði á Íslandi séu góð og að hér sé gott að reka fyrirtæki. Ef niðurstaðan er sú að fyrirtæki sem ætla að byggja upp gagnagrunna og þjónustu á Íslandi eigi þá hættu að þeir verði með einhverjum hætti teknir af þeim, eins og Samkeppniseftirlitið ætlaði að gera í þessu tilfelli, þá gerist bara eitt. Þessi fyrirtæki fara bara eitthvert annað,“ segir Sigríður Margrét.

Sigríður Margrét er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .