Í upphafi árs hófu tveir nýir starfsmenn störf hjá hagdeild Alþýðusambands Íslands. Þetta segir í fréttatilkynningu frá samtökunum.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir er nýr hagfræðingur hjá ASÍ. Sigríður er með BA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands og meistarapróf í viðskipta- og hagfræði frá Uppsalaháskóla í Svíþjóð.

Sigríður Ingibjörg sat á Alþingi tvö kjörtímabil frá 2009 til 2016 fyrir Samfylkinguna. Sigríður var formaður velferðarnefndar Alþingis frá 2012 til 2016 og formaður fjárlaganefndar 2011 til 2012. Sigríður starfaði áður hjá félags- og tryggingamálaráðuneytinu, hjá Alþýðusambandi Íslands 2005 til 2007, Hagstofu Íslands og hjá Norræna félaginu.

Sigurlaug Hauksdóttir er nýr verkefnastjóri í verðlagseftirliti ASÍ.

Sigurlaug er félagsfræðingur að mennt en undanfarin 6 ár hefur hún verið útsendur starfsmaður velferðaráðuneytisins hjá ESB þar sem hún hefur m.a. veitt ráðgjöf um mælingar á lýðheilsu. Áður starfaði hún á Hagstofu Íslands, mest við kannanir.