Fjárlaganefnd Alþingis íhugar að kalla Má Guðmundsson, seðlabankastjóra, á fund til að yfirfara ákvæði samnings, sem gerður var um sölu danska bankans FIH Erhvervsbank til lífeyrissjóðsins ATP og fleiri fjárfesta. Þetta kemur fram í viðtali Bloomberg fréttastofunnar við Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, formann fjármálanefndar. Útlit er fyrir að Seðlabankinn fái mun minna fyrir FIH en gert var ráð fyrir í upphafi.

„Það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir íslenska ríkið," segir Sigríður Ingibjörg við Bloomberg. Fjárlaganefnd kunni að þurfa að leggja mat á hvort Seðlabankinn eigi að grípa til ráðstafana til að tryggja hagsmuni bankans og íslenska ríkisins. Seðlabankinn var með allsherjarveð í tæplega 99% hlutafjár FIH eftir að hafa veitt Kaupþingi 500 milljón evra þrautavaralán haustið 2008. Skilanefnd Kaupþings og Seðlabankinn seldu danska bankann síðan haustið 2010 til danskra og sænskra lífeyrissjóða og tryggingafélaga í september í fyrra fyrir 5 milljarða danska króna, sem samsvarar um 103 milljörðum króna.

Hluti kaupverðsins, 1,9 milljarðar danskra króna, var greiddur samstundi en afganginn átti að greiða á fjórum árum. Þá upphæð er hægt að leiðrétta í takt við tap sem FIH verður fyrir vegna eigna á efnahagsreikningi bankans á tímabilinu. FIH banki tilkynnti í nóvember að hann hefði fært niður lánabók sína um 19% á fyrstu mánuðum ársins 2011. Danskir fjölmiðlar höfðu þá eftir Lars Rohde, forstjóra ATP, að líklega myndi þetta leiða til þess að greiðslurnar til Íslands myndu lækka vegna ákvæðisins í kaupsamningnum um útlánatapið.

Sigríður Ingibjörg vill að fjárlaganefnd gangi úr skugga um hvort aðgerðir danska bankans séu í samræmi við ákvæði kaupsamningsins og hvort hægt hefði verið að sjá þetta fyrir þegar samningurinn var gerður.