Tilnefningarnefnd Haga hefur lagt til að Sigríður Olgeirsdóttur verði kjörin í stjórn félagsins í stað Katrínar Olgu Jóhannesdóttur, sem hefur setið í stjórninni frá árinu 2019, en hún gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Alls bárust tíu framboð til stjórnarinnar, að því er kemur fram í skýrslu nefndarinnar fyrir aðalfund Haga sem fer fram þann 1. júní næstkomandi.

Eftir yfirferð nefndarmanna var ákveðið að eiga viðtöl við tvo frambjóðendur af þeim sem ekki eru í stjórn félagsins. Sigríður varð fyrir valinu en hún starfaði síðast sem sviðsstjóri þjónustu hjá Völku. Hún situr í dag í stjórn Opinna kerfa, er varamaður í bankaráði Landsbankans, stjórnarmaður í Íslandshótelum og er í tilnefningarnefnd Sjóvá.

„Tilnefningarnefnd leggur til að Sigríður Olgeirsdóttir komi ný inn í stjórnina, en þar er um að ræða einstakling með marktæka reynslu af stafrænum umbreytingum og upplýsingatækni. Það er mat nefndarinnar að menntun hennar og mikil reynsla á sviði upplýsingatækni og breytingastjórnunar styrki stjórnina við ákvarðanatöku og mati á kostum í þeirri stafrænu vegferð sem félagið er að leggja í,“ segir í rökstuðningi nefndarinnar.

Nefndin segir að forstjóri og stjórnarmenn hafi komið því á framfæri að félagið leggi nú sérstaka áherslu á stafræna þróun og markaðsmál. Sem dæmi hafi starfsmannahópur sem vinni að þróun á sviði upplýsingatækni og stafrænnar vegferðar var nýlega stækkaður „verulega“.

Tilnefningarnefnd Haga leggur því til að eftirfarandi frambjóðendur verði kosnir í stjórn Haga:

  • Davíð Harðarson, stjórnarformaður Haga og fjármálastjóri Travel Connect
  • Eiríkur S. Jóhannsson, stjórnarformaður Samherja
  • Eva Bryndís Helgadóttir, lögmaður hjá LMG lögmönnum
  • Jensína Kristín Böðvarsdóttir, framkvæmdastjóri og eigandi Vinnvinn
  • Sigríður Olgeirsdóttir, stjórnarmaður í Opnum kerfum og varamaður í bankaráði Landsbankans

Sigríður Olgeirsdóttir hefur verið stjórnandi í hugbúnaðar- og hátæknigeiranum og Íslandsbanka. Hún var sviðsstjóri þjónustu hjá Völku árin 2019-2021. Þar áður var hún framkvæmdastjóri rekstrar- og upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka árin 2010-2019. Hún hefur einnig gegnt stöðu framkvæmdastjóra Ax hugbúnaðarhúss, forstjóra Humac ásamt því að stofna og byggja upp Tæknival í Danmörku.

Hún er með AMP gráðu frá Harvard Business School, MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík, rekstar- og viðskiptanám hjá Endurmenntun HÍ og kerfisfræði frá EDB-skolen í Danmörku.

Í tilnefningarnefnd Haga sitja Ásta Bjarnadóttir vinnusálfræðingur, Björg Sigurðardóttir, endurskoðandi og Símon Á. Gunnarsson endurskoðandi. Björg tók við formennsku nefndarinnar af Símoni í janúar 2022.