„Kæra Jóhanna, ég vil biðja þig um að nýta  krafta þína og hvetja konur til þess að sækjast eftir frama í pólitík og viðskiptum en um leið vinsamlegast biðja þig um að setja ekki pólitískt launaþak á stjórnendur á sama tíma og okkar tími er kominn,“ sagði Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já, í ræðu sinni á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins í dag. Þar vildi Sigríður Margrét nýta tækifærið og fá forsætisráðherra í lið með sér til að hvetja konur sem hafa áhuga til að sækjast eftir áhrifastöðum í atvinnulífinu.

Sigríður Margrét fjallaði í erindi sínu um stöðu kvenna í æðstu störfum í atvinnulífinu. Hún sagði að enn í dag tilheyri hún minnihlutahópi sem ung kona í stjórnendastöðu. Hópurinn fari hinsvegar ört stækkandi og benti á tölfræðiþætti máli sínu til stuðnings. Þannig hafi engin kona verið í framkvæmdastjórn SA árið 2000 og þá voru 4% stjórnarmanna konur. Í dag eru 38% framkvæmdastjórnar SA konur og 24% stjórnarmanna.