Sigurbjörn Gunnarsson framkvæmdastjóri Lyfju hf. hefur  óskað eftir því að láta af störfum hjá félaginu eftir tólf ára færsælt starf að því er segir í fréttatilkynningu. Sigríður Margrét Oddsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Lyfju í hans stað og mun hefja störf 1. febrúar næstkomandi.

Sigríður Margrét hefur reynslu víða að úr íslensku atvinnulífi og tekið virkan þátt í störfum fyrir hagsmunafélög á vegum atvinnulífsins. Sigríður hefur starfað sem framkvæmdastjóri um árabil og setið í stjórnum félaga, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá á þriðjudag hætti hún sem forstjóri Já, en settist þess í stað í stjórn félagsins.

Hún situr í stjórn Viðskiptaráðs Íslands og er jafnframt formaður nýsköpunarhóps ráðsins. Enn fremur situr hún í skólanefnd Verzlunarskóla Íslands. Sigríður er með B.Sc. gráðu í rekstrarfræðum frá Háskólanum á Akureyri og hefur hún einnig sótt stjórnendanámskeið hjá IESE Business School og Harvard.

„Þetta hefur verið viðburðaríkur tími og miklar breytingar hafa átt sér stað á lyfja- og smásölumarkaði. Það hefur verið mjög ánægjulegt að starfa fyrir Lyfju hf. með öflugu og góðu fólki sem ég veit að ég á eftir að sakna samskiptanna við. En allt hefur sinn tíma og mér finnst þetta rétti tíminn til að láta staðar numið,“ segir Sigurbjörn Gunnarsson.

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á viðskiptum, nýsköpun, tækni og markaðsmálum en umfram allt hef ég leitast við að vinna með góðu fólki að góðum verkum. Lyfja er einstakt fyrirtæki sem lætur sig samfélagið varða og sinnir mikilvægri þjónustu um allt land. Ég hlakka því til að móta framtíð félagsins með öflugum hópi starfsmanna og nýjum eigendum félagsins,“ segir Sigríður Margrét.

„Það er ánægjulegt að tengjast félaginu á ný en ég var annar stofnandi Lyfju árið 1996 og stýrði félaginu fram til ársins 2006, ég þekki því félagið mjög vel og hef mikla trú á því og þeim tækifærum sem fylgja tímum mikilla tækniframfara, lengra og betra lífi landsmanna, þar ætlum við að leggja okkar lóð á vogarskálarnar.“  segir Ingi Guðjónsson, stjórnarformaður Lyfju.