Sigríður Olgeirsdóttir var nýverið ráðin sviðstjóri þjónustu hjá hátæknifyrirtækinu Völku. Hún mun bera ábyrgð á þjónustusviði fyrirtækisins á alþjóðvísu, en fyrirtækið hefur vaxið mjög síðustu misseri.  Sigríður var síðustu níu ár framkvæmdastjóri rekstrar- og upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka.  Hún hefur einnig setið í fjölda stjórna í viðskiptalífinu, hérlendis sem erlendis.

Hún var framkvæmdastjóri Ax hugbúnaðarhúss, forstjóri Humac, og framkvæmdastjóri hjá Tæknivali og stofnaði og byggði upp Tæknival í Danmörku. Sigríður er kerfisfræðingur frá Tigentskolen í Danmörku, með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík, AMP gráðu frá Harvard Business School og próf í rekstrar- og viðskiptafræðum frá Endurmenntun Háskóla Íslands.

Helgi Hjálmarsson framkvæmdastjóri Völku er ákaflega ánægður að fá jafnreyndan stjórnanda og Sigríði til liðs við félagið. „Reynsla hennar úr hugbúnaðargeiranum, fjármálageiranum og sem stjórnandi mun nýtast okkur vel í okkar fjölbreyttu starfsemi um heim allan,“ segir Helgi.

„Vöxtur fyrirtækisins hefur verið hraður síðustu árin og er ráðning hennar í beinu framhaldi á þeirri þróun. Þjónustan sem við veitum viðskiptavinum okkar víðsvegar um heim er lykilþáttur í allri okkar starfsemi og því mikill fengur fyrir okkur að fá Sigríði í okkar teymi.“