Sigríður Inga Svarfdal og Björn Ingi Björnsson hafa verið ráðin til YAY. Fyrirtækið er markaðstorg fyrir rafræn gjafabréf frá fjölda fyrirtækja í gegnum app sem nefnist YAY.

Björn Ingi starfaði áður hjá 365 og Vodafone á sölu og þjónustusviði. Hann er með Master í upplýsingastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík. Sigríður Inga starfaði áður sem sem markaðsfulltrúi á sölu og markaðsdeild Reykjavik Excursions. Hún er með menntun í Markaðssetningu og almannatengslum frá Háskólanum í Reykjavík

„Það er mikill fengur fyrir okkur að fá þau Björn og Sigríði til starfa og bæta þannig enn meiri þekkingu og hæfni við þann frábæra mannauð sem vinnur nú þegar hjá YAY. Það hefur verið mikill vöxtur hjá YAY þrátt fyrir COVID-19. Við höfum aukið við okkur bæði viðskiptavinum og fyrirtækjum,“ segir Ari Steinarsson, framkvæmdastjóri YAY, í fréttatilkynningu.

YAY hefur meðal annars séð um Ferðagjöfina fyrir íslenska ríkið sem Íslendingar hafa nýtt sér vel á ferðalögum innanlands frá því síðastliðið sumar og gengið framar vonum. Fyrirtækið hefur vaxið mjög á stuttum tíma og selur nú gjafabréf frá yfir 140 fyrirtækjum. Mastercard valdi nýverið YAY, fyrst íslenskra fyrirtækja, til að taka þátt í sérstöku verkefni sem ber heitið Mastercard Lighthouse.

Sjá einnig: YAY vekur athygli erlendis

„Í gegnum þetta prógram höfum við fundað með öllum helstu sérfræðingum innan Mastercard og alla helstu banka Norður Evrópu sem standa einna fremst í þessum greiðsluheimi. Það er svo sannarlega spennandi tímar framundan," segir Ari ennfremur.