„Vinstri menn vísa til Noregs sem fyrirmyndarríkis með „algert gagnsæi“ um fjárhagsmálefni manna. Ekki fylgir þó sögunni að síðasta vinstri stjórn Noregs herti mjög reglur um uppflettingar, t.d. með því að krefjast þess að uppflettarar gefi upp nafn sitt.“

Þetta segir Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í stöðuuppfærslu á Facebook . Sem kunnugt er ætlar Sigríður aftur að leggja fram frumvarp sitt um að takmarka aðgengi almennings að upplýsingum úr skattaskrám og birtingu þeirra, líkt og fram kom í fréttum í gær .

Þetta hefur fengið nokkra gagnrýni frá aðilum sem telja að upplýsingarnar eigi að vera opinberar, og hafa þeir bent á Noreg í því sambandi þar sem Norðmenn geta flett upp allt að 500 löndum sínum í hverjum mánuði . Sigríður bendir hins vegar á að núverandi ríkisstjórn í Noregi hafi það á stefnuskrá sinni að renna enn frekari stoðum undir friðhelgi einkalífsins.

Þá ber Sigríður dönsku löggjöfina saman við þá íslensku og segir hún hvers kyns upplýsingagjöf um skatta manna með öllu óheimila í Danmörku.