Lyfjafyrirtækið Alvotech hefur ráðið Sigríði Elínu Guðlaugsdóttur sem framkvæmdastjóra Mannauðs.  Frá þessu er greint í fréttatilkynningu. Hún mun bera ábyrgð á mannauðsmálum fyrirtækisins á alþjóðavísu og starfa með framkvæmdastjórn fyrirtækisins í áframhaldandi uppbyggingu þess.

Skóflustunga var tekin að nýju hátæknisetri Alvotech í Vatnsmýrinni í október 2013 og frá þeim tíma hefur fyrirtækið unnið að þróun líftæknilyfja sem verða notuð til meðferðar við erfiðum sjúkdómum, eins og ýmsum sjálfsofnæmissjúkdómum og krabbameini. Með ráðningu Sigríðar er heildarfjöldi vísindamanna og sérfræðinga fyrirtækisins nú um 480 talsins í fjórum löndum.

Sigríður Elín kemur frá EFLU verkfræðistofu þar sem hún hefur starfað sem sviðsstjóri Mannauðs en áður var hún hjá Háskólanum í Reykjavík um sjö ára skeið,  sem framkvæmdastjóri Mannauðs og gæða. Þá starfaði hún í 14 ár hjá Íslenskri erfðagreiningu sem mannauðsstjóri og síðar mannauðs-  og rekstrarstjóri.

Sigríður Elín segist full tilhlökkunar að hefja störf hjá Alvotech. „Það er ánægjulegt að fá tækifæri til þess að móta framtíðina á sviði líftæknilyfja með Alvotech á næstu árum. Aukið aðgengi sjúklinga um allan heim að nýjum lyfjum og betri lífsgæði fólks með erfiða sjúkdóma er drifkraftur fyrirtækjamenningar Alvotech og það höfðar vel til mín. Ég vonast til að reynsla mín og þekking úr alþjóðlegu umhverfi nýtist fyrirtækinu í áframhaldandi vexti. Þetta er líklega starfið sem ég er búin að vera æfa mig fyrir alla ævi,“ segir Sigríður.

Sigríður Elín er með MSc. gráðu í alþjóðlegri mannauðsstjórnun frá Háskólanum í Leicester, B.A. gráðu í félags- og atvinnulífsfræði frá HÍ og lauk AMP stjórnendanámi 2016 frá IESE í Barcelona. Sigríður sat um fimm ára skeið í stjórn Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi. Sigríður Elín er gift Bjarnhéðni Grétarssyni og eiga þau þrjár dætur.