Lögmannafélag Íslands hefur frá því í apríl beðið Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara að koma til fundar við sig til þess að ræða framkvæmd símhlerana. Ríkissaksóknari hefur hins vegar hunsað beiðnirnar hingað til. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu.

Eins og fram hefur komið hyggst Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætis- og dómsmálaráðherra, senda réttarfarsnefnd formlegt erindi í þeim tilgangi að kanna hvort sérstakur saksóknari hafi farið að lögum og reglum um símhleranir. Allsherjar- og menntamálanefnd mun einnig funda um málið í dag og mun Sigríður taka þátt í fundinum.

„Við höfum litið svo á að regluverkið eins og það er sé nægilega traust. Og þess vegna hefur okkur komið á óvart að það séu einhverjar efasemdir um hvað megi gera í þessu, hvað sé heimilt að gera í þessum efnum og að framkvæmdin virðist vera ótraust,“ segir Jónas Þór Guðmundsson, formaður Lögmannafélags Íslands, í samtali við Fréttablaðið og fagnar því jafnframt að boðað hafi verið til fundarins.