Í frumvarpi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, er lagt til að íslensk félög með erlenda eigendur eða stjórnarmenn geti skilað inn ársreikningum á ensku eða dönsku. Í lögum um bókhald er félögum sem gera upp í erlendri mynt þetta eingöngu heimilt.

Sigríður A. Andersen, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur samkvæmt frétt Morgunblaðsins í dag lagt til að þetta ákvæði verði fellt út úr frumvarpinu. Engin rök séu fyrir öðru en að íslensk félög skili opinberum gögnum á íslensku. Íslenska sé tungumál stjórnsýslunnar og réttarfarsins og dómstólar hafi margoft gert athugasemdir við að skjöl séu lögð fram á erlendum tungumálum.

Sigríður segist í samtali við Morgunblaðið skilja þörfina fyrir að hafa ársreikninga líka á öðrum tungumálum. Frumvarpið virðist hins vegar vera einhvers konar misskilin greiðasemi við íslensk fyrirtæki.