Tveir nefndarmanna í sérstakri rannsóknarnefnd Alþingis (sem á að rannsaka aðdraganda bankahrunsins í október s.l.), þeir Páll Hreinsson og Tryggvi Guðmundsson telja að Sigríður Benediktsdóttir, sem jafnframt er þriðji meðlimur nefndarinnar, telja að Sigríður hafi ekki gert sig vanhæfa til að fara með afmarkaða þætti í rannsókn nefndarinnar á grundvelli reglna um sérstakt hæfi.

Þetta kemur fram á vef nefndarinnar í dag en forsaga málsins er sú að nefndinni hafði borist erindi frá Jónasi Fr. Jónssyni, fyrrv. forstjóra Fjármálaeftirlitsins þar sem Jónas hafði gert athugasemdir við hæfi Sigríðar vegna ummæla sem hún lét falla í Yale Daily News (skólablaði Yale þar sem Sigríður kennir hagfræði).

Fram kemur á vef nefndarinnar að löggiltur skjalaþýðandi úr ensku hafi farið yfir ummæli Sigríðar.

„Til þess að um vanhæfi sé að ræða á grundvelli reglna um sérstakt hæfi innan stjórnsýslunnar þurfa að liggja fyrir einhverjar sannanlegar hlutlægar ástæður sem almennt eru taldar til þess fallnar að draga megi með réttu í efa óhlutdrægni þess sem í hlut á og þá við úrlausn eða umfjöllun um mál tiltekins einstaklings, einkaaðila eða stofnunar,“ segir í niðurstöðu þeirra Páls og Tryggva.

„Almennt er talið að töluvert þurfi til að koma svo starfsmenn og nefndarmenn, sem 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gildir um, verði vanhæfir vegna ummæla sinna um mál. Á það helst við þar sem starfsmaður hefur með skýrum og afdráttarlausum hætti tekið opinbera afstöðu til úrlausnarefni máls þar sem skorið skal úr ágreiningi tveggja eða fleiri aðila með ólíka hagsmuni.“

Sjá nánar á vef Rannsóknarnefndarinnar.