Sigríður Margrét Oddsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Já, dótturfélags Símans. Já annast rekstur upplýsingaþjónustunnar 118, vefsvæðisins Símaskrá.is og ritstjórn og útgáfu Símaskrárinnar.

Sigríður Margrét er fædd í Reykjavík 1976. Hún varð stúdent af hagfræðibraut Verslunarskóla Íslands 1995 og útskrifaðist með B.Sc. gráðu af markaðssviði rekstrarfræða við Háskólann á Akureyri 1999.

Sigríður Margrét starfaði sem ráðgjafi og lykilviðskiptastjóri hjá IMG Gallup 1999-2005. Hún var forstöðumaður IMG Gallup á Akureyri 2002-2005 eða þar til hún var ráðin framkvæmdastjóri Já með aðsetur í Reykjavík.

Sigríður Margrét situr í stjórn Góðvina Háskólans á Akureyri og Símenntunarstöðvar Eyjafjarðar og er meðlimur í Rótarýklúbbi Akureyrar.

Sigríður Margrét er gift Rúnari Pálssyni og eiga þau tvo syni.