Sigríður Olgeirsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdarstjóri rekstrar- og upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka. Hún mun bera ábyrgð á upplýsingatækni, rekstri, bakvinnslu og gæðamálum.

Sigríður er með MBA gráðu í alþjóðastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík og er menntaður rekstrarfræðingur frá Endurmenntun HÍ og kerfisfræðingur frá Tietgenskolen EDB skolen í Óðinsvéum í Danmörku.

Sigríður hefur starfað innan hugbúnaðar- og upplýsingatæknigeirans frá árinu 1998. Hún var framkvæmdarstjóri Ax hugbúnaðarhúss frá 2001-2006 en áður starfaði hún sem framkvæmdarstjóri Ax Business Intelligence A/S í Danmörku frá 1999-2001. Þá var hún forstöðumaður hugbúnaðarsviðs Tæknivals hf. á árunum 1997 – 1999. Sigríður starfaði um hríð sem framkvæmdastjóri hjá Símanum þar sem hún vann m.a. að viðskiptaþróun og  fjárfestingum og var forstjóri Humac frá 2007-2008. Hún hefur setið í fjölda stjórna bæði hérlendis og erlendis.

Hluti af skipulagsbreytingum

Í tilkynningu frá Íslandsbanka segir að um sé að ræða hluta af skipulagsbreytingum bankans. Í breytingunum felst meðal annars að rekstrar- og upplýsingatæknimál, sem áður voru hluti af fjármálasviði, eru sett undir sérstakt svið. „Á sama tíma flytjast Fjárstýring, samskipti við lánastofnanir, lánshæfismatsfyrirtæki og fjárfesta undir Fjármálasvið sem Sigrún Ragna Ólafsdóttir stýrir,“ segir í tilkynningunni.

„Þá hafa verið dregin skarpari skil á milli starfsemi útlánaeininga (Viðskiptabankasvið og Fyrirtækjasvið) og þeirra sviða sem starfa á fjárfestinga- og fjármálmarkaði (Eignastýring og Markaðir). Eignastýring og Markaðir starfa sem sjálfstæðar tekjueiningar en samhliða flyst Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka undir Markaði.“