Sigríður Þorsteinsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður samskiptasviðs Sjálfstæðisflokksins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum en undanfarin fjögur ár hefur hún gegnt starfi upplýsingafulltrúa sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi. Þar áður starfaði hún sem fjölmiðlafulltrúi á skrifstofu Sameinuðu þjóðanna í London.

Hún hefur auk þess unnið hjá fjölmiðlum í Bretlandi og í Frakklandi en ekki kemur fram í tilkynningunni hjá hvaða fjölmiðlum. Fram kemur að Sigríður hefur meistaragráðu í alþjóðasamskiptum og samningatækni frá Schiller International University í London og er með B.A. gráðu í almannatengslum frá The American University of Paris.

Sigríður tekur til starfa hjá Sjálfstæðisflokknum strax á nýju ári.