Bílaleigan Alp hefur ráðið Sigríði Þrúði Stefánsdóttur í stöðu mannauðsstjóra hjá fyrirtækinu.

Í tilkynningu frá Alp kemur fram að mannauðsstjóri sé ný staða hjá Alp og markar stefnu fyrirtækisins í átt að auknum gæðum og markvissara og stefnumiðaðra starfsmannahaldi.

Bílaleigan Alp er umboðsaðili AVIS og Budget og ein af stærstu bílaleigum landsins með yfir 1100 bíla í rekstri á háannatíma.

„Með ráðningu mannauðsstjóra vill Alp styrkja fyrirtækið sem leiðandi fyrirtæki á sviði ferðaþjónustu og efla og styrkja mannauð fyrirtækisins,“ segir í tilkynningunni.

Hjá Alp starfa tæplega 60 manns en allt að 90 manns þegar mest er og rekur fyrirtækið 12 leigustöðvar um land allt.

Sigríður Þrúður hefur starfað lengi í ferðaþjónustu og að mannauðsmálum, sl. 5 ár hjá HRM rannsóknir & ráðgjöf, við kennslu og ráðgjöf hjá Háskólanum í Reykjavik, sem forstöðumaður Ferðamálaskólans í Kópavogi svo eitthvað sé nefnt. Sigríður Þrúður hefur unnið við mælingar á starfsánægju, framkvæmd þarfagreininga fyrir fræðslu og þjálfun, þjónustukannanir, ráðningar o.fl.