Lið Háskólans í Reykjavík sigraði í alþjóðlegri keppni í samningatækni, sem haldið var í Aþenu í Grikklandi um helgina. Keppnin er ein þekktasta sinnar tegundar og hafa vinsældir hennar vaxið ár frá ári. Hún var stofnuð af Harvard-háskóla í Boston og HHL-viðskiptaháskólanum í Leipzig.

Fram kemur í tilkynningu frá Háskólanum í Reykjavík að hann hafi sent út fimm manna hóp í keppnina, þrjá keppendur úr meistaranámi, þá Ingvar Sverrisson (MBA), Kristinn Jakobsson (MBA) og Tryggva Guðbjörn Benediktsson (MIB). Auk þeirra fóru þjálfarar liðsins með, þau Aðalsteinn Leifsson og Aldís Guðný Sigurðardóttir en Aldís tók einnig sæti sem dómari í keppninni í svokallaðri dómaralotu.  Þetta er þriðja árið í röð sem HR sendir lið í keppnina og hefur lið háskólans ávallt skipað eitt af efstu þrem sætunum (2011, 2. sæti, 2012, 3. sæti og 2013, 1. sæti).

Yfir 60 lið sóttu um þátttökurétt til keppninnar í ár en einungis 18 lið komast alla leið. Keppendur koma frá virtum háskólum víðsvegar um heiminn, meðal annars frá Harvard Law School, HHL, ESSEC Business School, IESEG School of Management, University of California Hastings Law, Texas Tech University, TUM og Bonn University.