Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, verður fyrsta konan hér á landi eftir hrun sem stýrir félagi sem skráð er í Kauphöll eftir skráningu tryggingafélagsins á þriðjudag í næstu viku. Kauphöllin samþykkti skráninguna í gær að undangengnu hlutafjárútboði sem lauk í vikunni.

„Mér hafði verið bent á að þetta kynni að vera tilfellið, en svo sem ekki leitt hugann mikið að þessu,“ segir Sigrún Ragna í samtali við Fréttablaðið í dag. Hún bendir á að allur hennar tími hafi farið í að einbeita sér að því að ljúka skráningarferlinu. Hún segir jákvætt að fá konu í hóp þeirra sem stýra skráðum fyrirtækjum hér á landi. „Ég hef líka þá bjargföstu trú að það skipti máli að hafa góða dreifingu í hópum, alveg sama hvort það er hjá forstjórum, í stjórnum eða hjá stjórnendum almennt,“ segir hún.

Viðskiptablaðið fjallar um skráningu VÍS í blaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.