Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra mun á ríkisráðsfundi á morgun leggja til við forseta Íslands að Sigrún Magnúsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og þingflokksformaður, taki við embætti umhverfis- og auðlindaráðherra. Þingflokkur Framsóknarflokksins samþykkti í dag tillögu Sigmundar Davíðs þess efnis.

Sigrún Magnúsdóttir er þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður. Hún var kjörin á þing vorið 2013 og hefur setið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis auk þess að gegna embætti þingflokksformanns. Sigrún sat einnig í borgarstjórn Reykjavíkur í 16 ár.

Haft er eftir Sigrúnu Magnúsdóttur í tilkynningu að hún hlakki til að takast á við þau verkefni sem bíði. Umhverfismálin séu mikilvæg fyrir framtíð lands og þjóðar. Þá segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson að Sigrún sé reynslumikill, farsæll og heilsteyptur stjórnmálamaður sem njóti trausts.