Sigrún Hlín Sigurðardóttir mun frá fyrsta maí taka við starfi forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálastofu. Í frétt Ferðamálastofu kemur fram að Sigrún hefur mikla reynslu innan ferðaþjónustunnar, hefur starfað hjá Ferðamálastofu í rúm 14 ár og þar af stýrt markaðsmálum fyrir Bretland síðastlin 6 ár. Sigrún Hlín tekur við af Ársæli Harðarsyni sem horfið hefur til annarra starfa.

Sigrún Hlín segir að nýja starfið leggist vel í sig. “Ég hef fylgst með og tekið þátt í uppbyggingu og vexti ferðaþjónustunnar undanfarin ár. Þar hafa auðvitað orðið miklar breytingar. Ég held að það séu spennandi tímar framundan og ótal tækifæri til áframhaldandi sóknar. Vonandi mun ég þar geta lagt mitt að mörkum,” segir Sigrún.

Undir það tekur Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri. “Þekking Sigrúnar á íslenskri ferðaþjónustu og áralöng reynsla af markaðsmálum er eitthvað sem er ómetanlegt. Ég veit að kraftar hennar og hugmyndaauðgi munu nýtast vel fyrir greinina á komandi árum,” segir Ólöf í frétt Ferðamálastofu.