Sigrún Jónsdóttir stjórnmálafræðingur hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar. Starfið var auglýst laust til umsóknar í sumar og sóttu tæplega þrjátíu um það.

Sigrún gegndi framkvæmdastjórastöðunni tímabundið síðastliðið vor eða eftir að Skúli Helgason, fyrrverandi framkvæmdastjóri, ákvað að bjóða sig fram til Alþingis.

Sigrún hefur störf í september.

Á vef Samfylkingarinnar segir að Sigrún hafi verið kosningastjóri Samfylkingarinnar árið 2007, í alþingiskosningunum þar á undan var hún kosningastjóri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.

Sigrún var bæjarfulltrúi í Kópavogi 1998 - 2006 og átti  m.a. sæti í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 2002-2006. Hún hefur auk þess sinnt fjölmörgum trúnaðarstörfum innan flokksins á undanförnum árum, að því er fram kemur á vef Samfylkingarinnar.

Sigrún er með BA próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og kennsluréttindi frá sama skóla. Frá því síðla árs 2005 hefur hún starfað hjá Háskóla Íslands, fyrst sem verkefnisstjóri í félagsvísindadeild en undanfarið sem deildarstjóri félags- og mannvísindadeildar.

Sigrún starfaði sem sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu á árunum 1993 - 2005. Hún var framkvæmdastjóri þingflokks Kvennalistans 1987 - 1991 og vann um tíma við blaðamennsku.