Sigrún Magnúsdóttir,  þingmaður Framsóknarflokksins, segir aðför stjórnmálamanna að forseta Íslands forkastanlega. Með þessu var Sigrún að vísa í ummæli sem höfð hafa verið eftir Steingrími J. Sigfússyni og Össurri Skarphéðinssyni vegna útgáfu nýrrar bókar hans.

„Það er ef til vill skiljanlegt að þeim svíði að hafa ekki komið fram vilja sínum um að samþykkja kröfur Breta og Hollendinga,“ sagði Sigrún undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.

„Væri ekki frekar ástæða til að þakka honum fyrir ávekni og djörfung,“ sagði Sigrún. Hún sagði að umræða fyrrnefndra stjórnmálamanna væri ekki stjórnskipaninni til framdráttar, né heldur væri hún til að bæta umræðu í stjórnmálum.