*

laugardagur, 24. júlí 2021
Fólk 13. apríl 2021 18:00

Sigrún og Alexander til Intellecta

Intellecta hefur ráðið þau Sigrúnu Magnúsdóttur og Alexander Jóhannesson til starfa í teymi ráðgjafa á sviði upplýsingatækni.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Intellecta hefur ráðið þau Sigrúnu Magnúsdóttur og Alexander Jóhannesson til starfa í teymi ráðgjafa á sviði upplýsingatækni. Greint er frá ráðningu þeirra í fréttatilkynningu.

Sigrún tekur við starfi verkefnastjóra. „Reynsla og sérþekking hennar er víðtæk og snýr mest að verkefnastjórnun, innleiðingu og uppfærslu á hugbúnaðarkerfum, auk þarfa- og ferlagreiningu innan fyrirtækja. Verkefnin sem hún hefur stýrt hafa verið af öllum stærðum þar sem reynt hefur á stjórnun jafnt sem hæfni í samskiptum. Undarfarin ár hefur Sigrún starfað sem ráðgjafi og verkefnastjóri við innleiðingar á Navision og Business Central fjárhagskerfum hjá Advania. Sigrún er með BA í Listasögu frá Háskólanum í Bergen og hefur lokið APME verkefnastjórnunarnámi frá Háskólanum í Reykjavík,“ segir í tilkynningu.

Alexander mun starfa sem sérfræðingur í sjálfvirknivæðingu viðskiptaferla. „Hann hefur starfað í nokkur ár sem ráðgjafi á sviði upplýsingatækni. Alexander starfaði síðast hjá Netcompany, sem er eitt stærsta hugbúnaðarfyrirtæki Danmerkur. Þar starfaði hann sem ráðgjafi m.a. fyrir skattayfirvöld með það að markmiði að auka skilvirkni og sjálfvirknivæða handvirka vinnu í kerfum. Alexander er með B.Sc. gráðu í hátækniverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og M.Sc. gráðu í rafmagnsverkfræði frá DTU með áherslu á sjálfvirkni og róbóta.“

„Það er frábært að fá þau Sigrúnu og Alexander til liðs við okkur nú þegar eftirspurn eftir ráðgjöf og aðstoð við hagræðingu ferla og starfshátta hefur aukist. Við sjáum að mörg fyrirtæki eru í verulegri tækniskuld og þurfa að aðlaga innviði sína í takt við þarfir nútímans." segir Einar Þór Bjarnason framkvæmdastjóri Intellecta í tilkynningu. „Það er ljóst að sókn í snjallvæðingu og stafræna þróun starfshátta hefur virkilega tekið vel við sér."

Stikkorð: Intellecta