Sigrún Ásta Einarsdóttir hefur verið ráðin í nýtt starf framkvæmdastjóra markaðs- og þróunarsviðs Egilssonar ehf. en undanfarna mánuði hefur hún starfað sem markaðsstjóri fyrirtækisins. Egilsson á og rekur A4, föndurverslunina Panduro og LEGO umboðið á Íslandi auk þess að starfrækja öfluga fyrirtækjaþjónustu og heildsölu.

Helstu verkefni markaðs- og þróunarsviðs lúta að þróun viðskipta- og vöruframboðs Egilssonar, stafrænni uppbyggingu fyrirtækisins og almennri stefnumótun á sviði markaðsmála. „Framundan eru spennandi tímar í verslun og þjónustu á Íslandi og ætlar Egilsson sér að vera fyrsta val neytenda á sínum markaði. Þessi breyting á skipulagi er liður í þeirri vegferð,“ segir Egill Þór Sigurðsson forstjóri.

Sigrún Ásta er með MBA gráðu frá Háskóla Íslands auk viðskiptafræðimenntunar með áherslu á markaðsrannsóknir. Hún starfaði lengi við vöru- og viðskiptaþróun hjá Vodafone og hefur víðtæka reynslu af stjórnun markaðsmála. Nú síðast starfaði Sigrún Ásta sem ráðgjafi hjá auglýsingastofunni Hvíta húsinu. Sigrún Ásta situr einnig í stjórn faghóps Ský um vefstjórnun.