Hrund Rudolfsdóttir, forstjóri Veritas, hefur gengið úr stjórn sjóðastýringarfyrirtækisins Stefnis, þar sem hún hefur gegnt stöðu stjórnarformanns frá árinu 2009. Hrund ákvað fyrir nokkru að gefa ekki kost á sér áfram sem stjórnarformaður Stefnis eftir 10 ára árangursríkt starf í þágu félagsins.

Sigrún Ragna Ólafsdóttir var kosin í stjórnina í hennar stað og mun taka við stjórnarformennskunni. Sigrún Ragna hefur fjölbreytta reynslu af fjármálamarkaði, m.a. sem forstjóri VÍS á árunum 2011-2016. Áður starfaði hún sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs Íslandsbanka og þar áður hjá Deloitte, þar sem hún var meðeigandi.

Sigrún Ragna hefur jafnframt setið í stjórnum fjölda fyrirtækja, í mörgum ólíkum geirum. Þar má nefna Vörð tryggingar, Reiknistofu bankanna, Auðkenni, Creditinfo Group og Creditinfo Lánstraust. Sigrún Ragna er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og löggiltur endurskoðandi. Sigrún Ragna útskrifaðist með MBA próf frá Háskólanum í Reykjavík árið 2007.

Aðrir í stjórn Stefnis eru Kristján Jóhannsson, sem jafnframt er varaformaður stjórnar, Flóki Halldórsson, Ragnhildur Sophusdóttir og Þórður Sverrisson.

„Ég hlakka til að starfa með öflugu teymi hjá Stefni að áframhaldandi uppbyggingu á vöruframboði og þjónustu við viðskiptavini félagsins,“ segir Sigrún Ragna. „Stefnir hefur verið leiðandi á sínu sviði og ég mun leggja mitt af mörkum til að svo verði áfram.“

Hrund Rudolfsdóttir , fráfarandi stjórnarformaður Stefnis segir undanfarin 10 ár hafa verið viðburðarík í sögu Stefnis. „Tíminn hefur einkennst af markvissri uppbyggingu í kviku og breytilegu umhverfi. Við höfum náð góðum árangri en nú finnst mér kominn tími á að nýtt fólk komi að málum,“ segir Hrund.

„Ég tók við hlutverki stjórnarformanns örfáum mánuðum eftir hrun og var það bæði áskorun og mikil reynsla.  Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og stórfelldar breytingar hafa orðið í ytra umhverfi og innra skipulagi Stefnis. Ég vil þakka öllu því fjölmarga starfsfólki, og einnig stjórnarmönnum sem hafa unnið með mér, fyrir ánægjulega samfylgd í heilan áratug.“

Hrund Rudólfsdóttir
Hrund Rudólfsdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Stærsta fyrirtæki sinnar tegundar á landinu

Stefnir hf. er stærsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins með um 320 milljarða króna í virkri stýringu, framkvæmdastjóri Stefnis er Jökull H. Úlfsson. Félagið var stofnað árið 1996 og er hlutverk þess að stýra fjármunum í eigu viðskiptavina með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Stefnir þjónar jafnt einstaklingum sem fagfjárfestum.

Hjá Stefni starfa um 20 sérfræðingar í fjórum teymum við stýringu á fjölbreyttu úrvali verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóða. Einnig stýrir félagið eignum nokkurra samlagshlutafélaga sem stofnuð hafa verið í kringum framtaksfjárfestingar.