Sigrún Þorleifsdóttir hefur verið ráðin til að stýra starfsmannasviði Vífilfells og tekur jafnframt sæti í framkvæmdastjórn fyrirtækisins.

Sigrún var áður einn af eigendum Attentus og sinnti þar meðal annars stjórnunarráðgjöf á sviði mannauðsmála. Hún var auk þess einn af stofnendum Vendum ehf. – stjórnendaþjálfunar og starfaði þar frá 2010 til 2012. Sigrún kennir leiðtogafræði í MBA námi Háskóla Íslands og hefur sérhæft sig í samskiptum innan fyrirtækja. Hún hefur einnig setið í ýmsum stjórnum félagasamtaka og fyrirtækja og ritað greinar um stjórnun fyrir viðskiptatímaritið Frjálsa verslun.

Sigrún lauk B.S. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst árið 1997 og M.S. gráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands árið 2010. Auk þess hefur hún lokið námi í stjórnendamarkþjálfun frá Opna Háskólanum í Reykjavík og Coach University.