Sigþór Einarsson hefur ákveðið að láta af störfum sem aðstoðarforstjóri Icelandair Group. Hann hyggst snúa sér að flugvélaviðskiptum, m.a. í samvinnu við Icelandair Group. Jafnframt mun hann áfram verða félaginu til ráðgjafar á öðrum sviðum.

"Ég hef átt 15 ómetanleg ár hjá Icelandair Group og forverum þess. Ég hef um nokkuð skeið ætlað mér að skipta um vettvang, og finnst vel til fallið að gera það nú þegar Icelandair Group stendur á tímamótum. Erfiðu endurskipulagningarferli er lokið og rekstur stendur traustum fótum. Félagið hefur á að skipa framúrskarandi starfsliði og stjórnendateymi, sem mun halda áfram að vinna stóra sigra á komandi árum."