Hljómsveit Sigur Rós hefur ekki fengið greitt fyrir sölu á Ágætis byrjun, annarri plötu sveitarinnar, í útlöndum. Platan hefur selst í fleiri milljónum eintaka á heimsvísu síðan hún kom út fyrir 15 árum. Henni hefur jafnframt verið hampað víða í erlendum tónlistarpressunni. Bandaríska tónlistartímaritið Rolling Stone setti hana sem dæmi í 29. sæti yfir bestu plötur fyrsta áratugar nýrrar aldar.

Georg Holm, bassaleikari hljómsveitarinnar, ræðir um málið í viðtali við Viðskiptablaðið sem kom út í dag. Þar segir hann að samskiptin við plötufyrirtæki í gegnum tíðina hafi ekki alltaf gengið vel þó svo að þeir séu ánægðir með fyrirtækið sem þeir eru hjá í dag.

Skúrkar og krimmar

„Við byrjuðum á að skrifa undir hjá plötufyrirtæki sem við vorum ánægðir með (FatCat) en til þess að geta samið við okkur þá þurftu þeir að gera samning við annað plötufyrirtæki. Þeir verða þá undirfyrirtæki annars plötufyrirtækis. Samskipti okkar við það fyrirtæki voru hörmuleg og eru enn. Þeir voru skúrk­ar og krimmar og eru enn. Það er fyrirtæki sem heitir Play it Again Sam. Þeir borguðu aldrei neitt og stungu öllu í vasann. Þeir eru alveg ótrúlegir,“ segir Georg en búið er að eyða miklum fjármunum í lögfræðinga vegna deilna við fyrirtækið. „Ég veit ekki til þess að við höfum fengið neitt borgað fyrir Ágætis byrjun. Ef við höfum fengið eitthvað þá eru þeir ennþá að borga mörg, mörg ár aftur í tímann.“

Georg Holm er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag og ræðir ýmsar hliðar Sigur Rósar. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.