Haraldur Ingólfur Þórðarson, Steingrímur Arnar Finnsson, Sigurbjörn Þorkelsson og Aðalheiður Magnúsdóttir,  eiga nú saman verðbréfamiðlunina Fossa markaði hf., en Fjármálaeftirlitið hefur komist að þeirri niðurstöðu að félög þeirra séu hæf til að fara með virkan eignarhlut í Fossum mörkuðum. Fossar markaðir er nýtt nafn, en félagið er stofnað á grunni félagsins Arm verðbréf hf.

Haraldur Þórðarson
Haraldur Þórðarson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Fossar markaðir hf. eru í 60% eigu Fossa Finance, sem aftur er í eigu Fossa ehf., Fossa Holding Limited, Sigurbjarnar og Aðalheiðar. Haraldur Ingólfur Þórðarson á 24% hlut í Fossum mörkuðum í gegnum félagið H3 ehf. og Steingrímur Arnar Finnsson á 16% í félaginu í gegnum Kormák Invest ehf.

Haraldur og Steingrímur unnu báðir hjá Straumi þar til í janúarlok á þessu ári. Haraldur var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta og Steingrímur starfaði einnig á sama sviði innan bankans.

Sigurbjörn vann lengi hjá Lehman Brothers og síðar Nomura bankanum og að því loknu hjá Barclays Capital. Aðalheiður er eiginkona hans.