Sigurbjörn Svavarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri landvinnslu Brims hf. og hefur hann nú þegar hafið störf. Starfsstöð hans er á Akureyri. Sigurbjörn, sem er 55 ára gamall, er vel kunnugur sjávarútveginum, sem hefur verið hans starfsvettvangur meira og minna í á þriðja áratug. Hann var m.a. útgerðarstjóri hjá Granda hf. í Reykjavík í fimmtán ár, en síðustu þrjú ár hefur hann gegnt starfi framkvæmdastjóra Scanmar á Íslandi, sem er þjónustufyrirtæki á hátæknibúnaði fyrir sjávarútveg.

Ráðning Sigurbjörns er liður í því að styrkja samkeppnishæfni landvinnslu Brims hf., en hérlend fiskvinnsla á í harðri og vaxandi samkeppni við fiskvinnslu erlendis.

Brim hf. er eitt af stærri sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Starfsemi félagsins snýr að öflun sjávarfangs og úrvinnslu. Það gerir út sex togara og tvo báta, rekur landvinnslu á Akureyri, þar sem framleiddar eru ferskar og frystar sjávarafurðir, saltfiskvinnslu á Grenivík og fiskþurrkun á Laugum í Reykjadal og á Akranesi.

Hjá Brimi og dótturfélögum þess starfa um fjögur hundruð manns.