Sigurborg Gunnarsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður viðskiptakerfa hjá Símanum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Sigurborg mun bera ábyrgð á hönnun hugbúnaðar innan Símans og taka þátt í að straumlínulaga Tæknisviðið með það að markmiði að minnka kostnað og bæta ferla, að því er fram kemur í tilkynningunni.  Áður var hún einn af framkvæmdastjórum Teris, sem áður hét Tölvumiðstöð sparisjóðanna, ásamt því að vera staðgengill forstjóra.

Sigurborg er með meistaragráðu í hugbúnaðarfræðum frá Háskólanum í Ósló. Hún hefur einnig sérhæft sig í stjórnun og verkefnastjórnun. Eiginmaður Sigurborgar er Guðmundur Sigurðsson lögfræðingur. Þau eiga þrjú börn á aldrinum 19-25 ára. Sigurborg er mikill áhugamaður um íþróttir og fyrrverandi landsliðsmaður í blaki.