Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka, var með tæpar 35,9 milljónir króna í laun á síðasta ári. Þetta gera þrjár milljónir króna í mánaðarlaun. Hann á 25 þúsund hluti í bankanum, að því er fram kemur í uppgjöri bankans fyrir síðasta ár. Sigurður Atli tók við af Gunnari Karli Guðmundssyni um mitt ár 2011. Fram kemur í ársreikningnum að Gunnar Karl hafi verið með tæpar 28,8 milljónir króna í laun árið 2011. Gera má ráð fyrir að inni í tölunni sé starfslokagreiðslur til hans.

MP banki hagnaðist um 251 milljón króna í fyrra. Það er talsverður viðsnúningur á milli ára en bankinn tapaði 484 milljónum króna árið 2011.

Þá kemur fram í uppgjörinu að stjórnarformaðurinn Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og ritstjóri, hafi verið með sex milljónir króna í laun í fyrra. Það gera hálfa milljón króna á mánuði. Aðrir stjórnarmenn eru með minna, allt frá rúmum 2,2 milljónum króna á síðasta ári upp að þremur milljónum.

Þá segir í ársuppgjörinu að sjö framkvæmdastjórar MP banka lepja ekki dauðann úr skel. Þeir voru saman með rúmar 168,4 milljónir króna í laun í fyrra. Það gera að jafnaði tvær milljónir króna á mánuði á mann.